Sífellt fleiri fyrirtæki leita til þjónustuaðila sem sérhæfa sig í mannauðsráðgjöf.
Í smærri og meðalstórum fyrirtækjum er oft ekki mannauðsstjóri og eru þá aðrir starfsmenn að sinna þeim málaflokki ásamt sínu aðalstarfi og þá er hætt við að starfsmannamálin lendi neðst í bunkanum og því er í raun enginn að sinna þeim. Í stærri fyrirtækjum með starfandi mannauðsstjóra getur oft á tíðum þurft stuðning vegna mannauðsmála.
Flestir eru meðvitaðir um mikilvægi þess að sinna mannauðsmálum vel og gera sér grein fyrir því að mannauðurinn er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækisins.
Þjónustan felur í sér stuðning, ráðgjöf og umsjón með öllu er viðkemur mannauðsmálum.
Við starfsgreiningu eru störf greind kerfisbundið í þeim tilgangi að skilja umfang þeirra betur, hvað í þeim felst og hvers þau krefjast. Starfsgreining leggur grunninn að vali á starfsmönnum, við framkvæmd frammistöðumats , gerð starfslýsinga og ákvarðanatöku um laun.
Starfslýsingar eru hornsteinn mannauðsstjórnunar fyrirtækis og tækið sem úrvinnsla annarra starfsmannamála byggir á. Ýtarleg starfsgreining er lykillinn að góðri starfslýsingu. Greinargóðar starfslýsingar eru grundvöllur faglegra ráðninga og undirstaða starfsþróunarsamtala.
Starfslýsingar eru mikilvægt verkfæri sem gagnast stjórnendum og starfsmönnum á ýmsan hátt. Faglega unnin starfslýsing er öflugt stjórntæki og umgjörð um starfið, þar koma fram meginkröfur s.s. hlutverk, ábyrgð og helstu verkefni starfsmanns.
Starfsmaður veit til hvers er ætlast af honum í starfi sem kemur t.d. í veg fyrir ýmiskonar árekstra og eykur sjálfstraust og gerir vinnuframlag starfsmanns skilvirkara. Starfslýsing er ennfremur mikilvægur grunnur til að meta frammistöðu starfsmanns.
Vel gerð starfslýsing er nauðsynlegur upphafspunktur hvers ráðningaferils og gerir leitina að hæfasta einstaklingnum markvissari og auðveldar upplýsingagjöf til efnilegra umsækjenda. Á grundvelli megin ábyrgðasviðs og verkefna starfsins er mat lagt á hvaða hæfni og þekkingu þarf til að ná góðum árangri í starfinu.
Tilgangur starfsmannasamtala er m.a. að gefa starfsfólki og stjórnendum tækifæri til að ræða saman við þægilegar aðstæður um starfið, frammistöðu og framtíðina með skipulögðum hætti. Starfsmannasamtöl hafa það að markmiði að efla og bæta samstarf og samskipti, auka starfsánægju, meta þörf á fræðslu og fullnýta hæfileika starfsfólks og ræða væntingar og óskir um starfsþróun.
Mikilvægt er að stjórnendur jafnt sem almennir starfsmenn séu vel undirbúnir fyrir starfsmannasamtalið. Til dæmis er áríðandi að allir aðilar geri sér grein fyrir að starfsmannasamtal er ekki launasamtal heldur er tilgangur þess að yfirmaður og starfsmaður vinni saman að starfsþróun, markmiðasetningu og endurgjöf. Starfsmannasamtöl skapa því vettvang til uppbyggilegrar yfirferðar og umræðu um það sem vel er gert og hvað betur má fara.
Oft reynist vel að fá utanaðkomandi aðila til aðstoðar við að móta launastrúktúr fyrtækis og er þá byggt á starfsgreiningum, starfslýsingum og frammistöðumati.
Hvernig staðið er að uppsögnum eða við hefðbundin starfslok skiptir miklu máli fyrir starfsanda. Meta þarf t.d. hvort vilji og þörf sé á að viðkomandi fái frekari aðstoð og lágmarka neikvæð áhrif vegna starfsloka/uppsagnar innan fyrirtækisins. Uppsagnir eru í eðli sínu viðkvæmur málaflokkur og því þarf að vanda vel til verka og tryggja að allir gangi sem sáttastir frá borði.
Við veitum ráðgjöf og aðstoð vegna starfsloka/uppsagna sem innifelur m.a. aðstoð við framkvæmd uppsagna ásamt stuðningi við einstaklinginn og ráðgjöf þegar kemur að næstu skrefum s.s. hvernig haga ber atvinnuleitinni til að hámarka árangur, hvar og hvernig sótt er um störf, fullbúin ferilskrá, markmiðasetning, hvatning til virkni og almennt einstaklingsmiðað viðtal hjá ráðgjafa.
Einnig er mikilvægt að draga sem mest úr þeim þekkingamissi sem getur átt sér stað þegar starfsmaður lætur af störfum. Nauðsynlegt er að gera viðeigandi ráðstafanir í tíma og aðstoða ráðgjafar okkar fyrirtæki við slíka greiningarvinnu og viðbragðsáætlanir til að lágmarka neikvæð áhrif starfsloka á rekstur þeirra.
Móttaka nýliða er eitt mikilvægasta verkefnið þegar kemur að mannauðsmálum. Hvernig staðið er að kynningu til nýrra starfsmanna á vinnustaðnum og starfseminni sem um ræðir getur skipt sköpum varðandi framlegð og frammistöðu starfsmanna til framtíðar ásamt því að hafa veruleg áhrif á starfsmannaveltu og starfsánægju
Rétt þjálfun í starfi sem fylgir stöðluðu verklagi við þjálfunina eykur starfsánægju og öryggi starfsmanna. Þannig dregur úr starfsmannaveltu, framlegð eykst og hver og einn starfsmaður fullnýtir hæfni og starfsorku sína.
Við veitum aðstoð við uppsetningu og framkvæmd nýliðanámskeiða og einnig útfærslu og stöðlun nýliðamóttöku.
Lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gera kröfu til fyrirtækja og stofnana sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri um að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Þeim er ætlað að viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum allra kynja.
Reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum gerir ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir geri áhættumat og hafi tiltæka viðbragðsáætlun vegna slíkra mála.
Við tökum að okkur aðstoð við gerð og eftirfylgni slíkra áætlana.
Persónuleikamat getur verið gott hjálpartæki þegar ráða skal starfsmann og hámarka þannig forspárgildi ráðningarferilsins.
Með þeim er ennfremur hægt að kanna hvar styrkleikar hvers og eins einstaklings í teyminu liggja, finna hvar þörf er á að vinna markvisst að úrbótum og hvernig má ná ennbetri árangri með því að fullnýta hæfileika starfsfólks.
Við bjóðum fyrirtækjum og stofnunum margvísleg persónuleikapróf bæði almenn víðtæk persónuleikamöt og sértæk möt sem snúa þá m.a. að stjórnunarhæfni, söluhæfni o.fl.
Viðhorfskannanir eru nýttar í æ auknara mæli til þess að mæla og greina þætti á borð við starfsánægju, væntingar og viðhorf starfsfólks til ýmissa þátta (Innri viðhorfskannanir). Einnig geta þær gefið góða mynd af viðhorfi viðskiptavina eða þeirra sem nýta þjónustu viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar (Ytri viðhorfskannanir) og þannig orðið lykillinn að umbótum..